Málþing: Rotþróin


Rotþróin 2014 – samantekt frá málþingi sem haldið var í apríl 2014

Á málþingi sem við héldum um frárennslismál, Rotþróin 2014, í Skjólbrekku í apríl síðastliðinn kom fram margt áhugavert sem okkur langar til að koma á framfæri við íbúa í Mývatnssveit.

 

Staða Mývatns í dag

Árni Einarsson forstöðumaður RAMÝ- Náttúrurannsóknarstöðvar við Mývatn hélt erindið. Þar kom fram að ástand botnþörunga (þar á meðal kúluskíts) sem þakið hafa botn Mývatns er mjög breytt frá því sem áður var. Áður fyrr þöktu þörungar botninn en nú er svo komið að einungis á mjög litlum hluta vatnsins er þörungana að finna og kúluskíturinn virðist vera horfinn með öllu. Þetta er grafalvarleg staðreynd og raskar því jafnvægi sem var í vatninu. Breytingarnar má rekja aftur til seinni hluta síðustu aldar.
Það er þekkt vandamál í vötnum sem eru ofauðguð að botnþörungar hverfa. Helsta ástæða fyrir því er að blágrænar bakteríur sem náttúrulega valda tímabundnu leirlosi í Mývatni fyrri hluta sumars fjölga sér í svo miklum mæli að birta sólar nær ekki til botns vatnsins eins og áður gerðist seinni hluta sumars. Ofauðgunin veldur því að þessi blómi stendur allt sumarið og hindrar birtu niður í vatnið. Þörungarnir sem búa á botninum eru háðir birtu sólar til að ljóstillífa en ná því ekki og verða undir í baráttunni.

Þingvallavatn

Birgir Þórðarson fjallaði um ástandið við vatnið, rannsóknir og væntanlegar úrbætur. Aðilar sem koma að stjórn og umsjón Þingvallavatns eru að vinna að verkefni þar sem tilgangurinn er að kanna ástand og fyrirkomulag fráveitna við vatnið ásamt vatnsöflun með það fyrir augum að vinna að úrbótum og skrásetja fráveitur og brunna. Ástandið er ekki gott og úrbóta er þörf. Vatnasvið Þingvallavatns er mjög stórt og um margt líkt Mývatni en þar er mikill ferskvatnsstraumur og hriplekt hraun. Miklar breytingar hafa orðið í og við vatnið á undanförnum árum. Má þar meðal annars nefna frárennsli frá virkjunum, stóraukna bílaumferð, aukningu ferðamanna, stækkun barrskóga og hlýnandi veðurfar. Gæði vatnsins eru í stórum dráttum góð enn sem komið er en hættumerki eru farin að sjást og marktækar breytingar hafa orðið. Til dæmis hefur rýni eða tærleiki vatnsins minnkað. Að mörgu leyti getum við speglað ástand þessara tveggja vatna og átt samleið um úrbætur.

Mannvit verkfræðistofa
Brynjólfur Björnsson fallaði um mögulegar lausnir í fráveitumálum ásamt umfjöllun um undirbúning framkvæmda. Mjög nauðsynlegt er að greina þá þætti sem hafa áhrif á virkni fráveitu s.s. magn skólps (mjög oft vanmetið), hitastig umhverfis og hvaða virkni á að ná fram. Skoða þarf hvaða lausnir eru í boði, best er að fá sérfræðing/verkfræðing til að skoða aðstæður til að meta hvaða lausn henti í hverju tilviki fyrir sig.
Undirbúningur framkvæmda – Athuga þarf skólpmagn og efnainnihald – kröfur í reglugerðum um hreinsun skólps – val á gerð skólphreinsivirkis – eitt miðlægt hreinsivirki/fleiri hreinsivirki nálægt uppruna skólpsins.
Dæmi um náttúrulegt hreinsivirki er tilbúið votlendi á Sólheimum í Grímsnesi og hefðbundin hreinsivirki (lífræn) þar sem frárennsli er hreinsað í nokkrum þrepum. Til eru margar gerðir af lífrænum hreinsivirkjum, t.d. virk seyra (e. activated sludge) – er m.a. á Borg í Grímsnesi og Egilsstöðum – hripsía (e. trickling filter) – er m.a. á Hvolsvelli og Laugarvatni. Hreinsun með snúningsdiskum (e. RBC – Rotating Biological Contactor) – er m.a. á Bifröst og Hvanneyri. Oft þarf að bæta við hreinsiþrepum til að fá næga hreinsun á næringarefnum (köfnunarefni og fosfór).

Ekki er hægt að segja að ein aðferð sé almennt betri en önnur þótt sumar aðferðir geti hentað betur við ákveðnar aðstæður. Hreinsivirki eru mismunandi milli framleiðenda. Oft er þetta einfaldlega spurning um kostnað.

Vatns- og fráveitufélag Íslands, VAFRÍ 

Brynjólfur Björnsson kynnti félagið. VAFRÍ er félag sem heyrir undir Umhverfis- og byggingaverfræðideild Háskóla Íslands. Félagið vinnur m.a. að því að stuðla að öruggum vatnsveitum, bættum vatnsgæðum og vistvænum fráveitum og að koma á bestu fáanlegu tækni við rekstur fráveita, auka og miðla þekkingu um vatns- og fráveitumál til almennings og vera stjórnvöldum innan handar um setningu laga og reglugerða og samningu staðla er varða vatns- og fráveitukerfi. Á heimsíðu þeirra er hægt að nálgast mikið af upplýsingum um lausnir varðandi fráveitur og skólp. www.vafri.hi.is.

Umhverfisstofnun (UST)

Svanfríður Dóra Karlsdóttir fjallaði um lög og reglugerðir vatns- og fráveitumála. Lög og reglugerðir um vatns- og fráveitumál sem eiga við svæðið í Mývatnssveit eru fjölmörg og ekki alltaf auðskilin. Regluverki um frárennslismál er ábótavant og ekki til þess fallið að gera starf heilbrigðisfulltrúa skilvirkt. Vinna við gerð nýrrar reglugerðar um fráveitur og skólp er hafin en það stendur á henni í umhverfisráðuneyti.

Hótel Laxá

Margrét Hólm Valsdóttir spjallaði stuttlega um umhverfisstefnu hótelsins.
Hótel Laxá er 80 herbergja hótel skammt frá bökkum Laxár. Við upphaf byggingar var ákveðið að fara í umhverfisvottunarferli Svansins, sem er opinbert umhverfismerki Norðurlanda. Tekið hefur verið mið af vottuninni allt byggingarferlið og hótelið verður „Svansmerkt“. Ávinningurinn felst í markvissum innkaupum og ýmiskonar sparnaði t.d. á þvottaefnum, pappír og fleiru. Einnig styður svansmerkið við markaðssetningu. Allt rusl er flokkað. Hótelið mun sækja um inngöngu í Vakann, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustu á Íslandi.
Skólp er leitt í hreinsivirki og allt ferlið frá eldhúsi, sturtum og klósettum er hannað með tilliti til væntanlegrar nýrrar reglugerðar sem kveður á um að fráveita skuli vera meira en tveggja þrepa. Hreinsistöðin, sem er frá Borgarplasti, byggir á svokölluðu SBR kerfi frá Klaro sem er þýskur framleiðandi. Til viðbótar við SBR kerfið er settur upp búnaður til að fella út fosfór og síðan eru sett hitarör í þróna til að halda uppi hitastigi til að hámarka útfellingu köfnunarefnis. Verði niðurbrot köfnunarefnis ekki nægjanlegt verður bætt við kerfi til að fella köfnunarefnið út.

Skútustaðahreppur

Guðrún M. Valgeirsdóttir fjallaði um stöðuna í dag og það sem er framundan.
Árið 2006 var gerð úttekt á frárennslismálum í Mývatnssveit. Í ljós kom að á 12 stöðum voru þau ekki í lagi. Þeim aðilum var sent bréf þar sem farið var fram á að bætt yrði úr ástandinu. Að öðru leyti hefur málinu ekki verið fylgt eftir. Í aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011–2023 er gert ráð fyrir að sveitarstjórn Skútustaðahrepps leggi fram fráveituáætlun til kynningar og samþykktar hjá Umhverfisstofnun fyrir árslok 2015.

HAUST Heilbrigðiseftirlit Austurlands

Helga Hreinsdóttir heilbrigðisfulltrúi fjallaði um reynslu og rannsóknir á austurlandi, m.a. Egilsstöðum. Á Egilsstöðum varð vakning í umhverfismálum og pólitískur vilji þess valdandi að þar hefur verið tekið með ábyrgð á frárennslismálum og skólpi. Þetta krefst eftirlits og fjármuna en vert er að geta þess að frárennslisgjöld íbúa á Egilsstöðum eru talsvert lægri en á Selfossi (ef þið munið ekki hvernig ástandið er þar er vert að horfa aftur á áramótaskaup RÚV um síðustu áramót). Niðurstöður HAUST voru þessar: Skólphreinsistöðvar virka vel svo fremi sem a) lagnakerfi sé í lagi b) skólp frá iðnaði er forhreinsað (olíuskiljur, fitugildrur og síur/hakkavélar) c) hreinsivirkin eru hæfilega stór d) hreinsivirkin eru vel þjónustuð e) hitaveituvatn, sturtur og heitir pottar séu ekki teknir inn á hreinsivirki.

Eftirfarandi aðilar kynntu lausnir til sölu á málþinginu:
Bólholt Egilsstöðum kynnti 4ra þrepa hreinsivirki. Heimasíða: http://www.bolholt.com/
Raf ehf Akureyri kynnti oson hreinsitæki. Heimasíða: http://www.bolholt.com/
Varma og Vélaverk Reykjavík kynnti fjölþrepa hreinsivirki. Heimasíða: http://www.vov.is/
Borgarplast Mosfellsbæ kynnti fjölþrepa hreinsivirki. Heimasíða:http://www.borgarplast.com/

Helsta niðurstaða málþingsins
Þónokkrar lausnir eru í boði til að koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif af völdum frárennslis. Lausnirnar þurfa ekki að vera flóknari en rotþró með siturbeði.

Ályktun stjórnar Fjöreggs vegna málþingsins:
Mývatn er í eðli sínu mjög næringarríkt vatn. Það lítur út fyrir að ofauðgun sé m.a. að valda miklum breytingum í vatninu. Stjórn félagsins telur það vera skyldu okkar sem íbúa þessa svæðis að gera það sem við getum til að sporna við þessari þróun.
Stjórn Fjöreggs hvetur alla íbúa sveitarinnar að kynna sér málið og skorar á nýja sveitarsjórn Skútustaðahrepps að taka málið föstum tökum.
Stjórnin telur að með samvinnu m.a. íbúa, sveitarstjórnar, Fjöreggs og fólks með sérfræðiþekkingu á sviði frárennslis og skólpmála getum við komið núverandi ástandi í betra horf.