Opinn fundur: Sambýli íbúa og ferðamanna í Mývatnssveit


Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, stendur fyrir fundi um sambýli íbúa og ferðamanna í Mývatnssveit,

laugardaginn 26. september
Seli – Hótel Mývatni milli kl. 13–18.

Fundurinn er opinn og allir eru velkomnir. Kaffi og léttar veitingar verða í boði fyrir fundargesti.

Markmið fundarins er að ræða í sameiningu helstu núningsfletina sem íbúar finna fyrir vegna aukins straums ferðamanna og ekki síður að koma fram með lausnir sem geta bætt samfélagið og umhverfið vegna þessarar þróunar.

Fundarstjóri er Sigríður Stefánsdóttir.

Dagskráin hefst á tveimur erindum:

  • Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri: Samlyndi íbúa og atvinnugreinar – skipulag ferðaþjónustunnar í fjölsóttri sveit.
  • Aagot Vigdís Óskarsdóttir, lögfræðingur: Heimildir ferðamanna til frjálsrar farar og dvalar á eignarlöndum. Farið verður yfir gildandi reglur og vikið að helstu réttarlegum vandamálum sem fylgja mikilli fjölgun ferðamanna.

Því næst gefst fundargestum kostur á að vinna í hópum þar sem þeir koma sínum málum og skoðunum á framfæri og vinna í átt að lausnamiðuðum niðurstöðum. Umræðuefnin sem tekin verða fyrir eru:

  1. Gisting utan merktra tjaldstæða: Gisting í húsbílum, tjöldum og húsvögnum utan tjaldstæða.
  2. Miðbærinn okkar: Álag á verslun, bílastæði, bensínsölu og langtímabílastæði í Reykjahlíð.
  3. Salerni og sorp: Aðgangur ferðamanna að salernum og sorpílátum.
  4. Ferðamenn utan hefðbundinna ferðamannastaða: Umferð ferðamanna á einkalóðum, heima á bæjum, utan merktra gönguleiða, á túnum o.s.frv.
  5. Ferðamenn á þjóðveginum: Umferð akandi, hjólandi og gangandi vegfarenda.

Fundargestir fá einnig tækifæri til að koma athugasemdum og skoðunum varðandi önnur atriði á framfæri. Eftir fundinn mun stjórn Fjöreggs safna saman umræðupunktum og vinna úr þeim, setja niðurstöður hópavinnunnar fram á skýran hátt og koma á framfæri við þá aðila sem málið varðar.

Það er von okkar að sem flestir sjái sér hag í að mæta og taka þátt í að móta framtíð sveitarinnar og samfélagsins með hag allra að leiðarljósi.

Stjórn Fjöreggs

Opinn fundur: Sambýli íbúa og ferðamanna